25 nóvember, 2010

Þjóðaratkvæðagreiðsla í júní 2012

Stjórnlagaþingið getur fengið fjóra mánuði til að ná niðurstöðu og það er nokkuð góður tími – ef menn á annað borð ætla sér að komast að niðurstöðu.
Í lögunum um stjórnlagaþing er rík áhersla lögð á annars vegar að þingið leiti eftir tillögum frá almenningi og hins vegar að upplýsingar um störf þingsins verði aðgengilegar fyrir almenning.
Þess vegna tel ég að þingið eigi fyrst að starfa í tvo mánuði og gera síðan hlé (í þrjá til sex mánuði?). Það hlé verði notað til að kynna vel afraksturinn af starfinu fram til þess tíma og gefa almenningi tækifæri til að kynna sér málið og gefa álit til kynna. Þetta hlé geta fulltrúar á stjórnlagaþingi líka notað til að vinna áfram að málinu, þó með óformlegum hætti sé. T.d. reynt að jafna ágreining sem vera kann og ræða málin áfram, bæði í sinn hóp og útávið. Síðan komi stjórnlagaþing saman aftur og ljúki verkinu á tveimur mánuðum, skili af sér frumvarpi að nýjum stjórnskipunarlögum fyrir lýðveldið Ísland.
Þetta frumvarp þarf að kynna vel og efna svo til þjóðaratkvæðagreiðslu um það, kanna hug þjóðarinnar til afurðar stjórnarlagaþingsins. Í þessari atkvæðagreiðslu ættum við líklega að kjósa um einstaka kafla eða hluta frumvarpsins, ekki frumvarpið í heild. Með því móti fæst betri mæling á vilja kjósenda.
Í stuttu máli: Þingið starfi í tvo mánuði, síðan nokkurra mánaða hlé og svo aftur tveggja mánaða þingstörf. Þá fái þjóðin tvo til þrjá mánuði til að melta og meta niðurstöðu þingsins og greiði svo atkvæði. Að lokum kemur frumvarpið til kasta Alþingis, aðeins Alþingi getur breytt stjórnarskránni eins og málum er háttað núna.
 
Með sameiginlegri niðurstöðu stjórnlagaþings eru meiri líkur á að frumvarpið njóti stuðnings þjóðarinnar og þá verður erfitt fyrir Alþingi annað en að taka málið til meðferðar og samþykkja breytingar á stjórnarskránni.

Ég vil vinna - fyrir þig!

Þær áherslur sem ég hef talað fyrir ríma mætavel við afstöðu almennings, ef marka má niðurstöður skoðanakönnunar varðandi verkefni stjórnlagaþings, sem birtar voru um daginn.
Ég legg áherslu á ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Minnihluti þingmanna þarf að geta skotið málum til þjóðarinnar. Tiltekinn fjöldi kjósenda geti líka sent mál í þjóðaratkvæði. Þjóðin á að vera stjórnarskrárgjafi, þannig er dregið úr freistnivanda Alþingis.
Við þurfum að setja skýrar grundvallarreglur og skerpa skilin milli löggjafans og framkvæmdavaldsins. T.d. þannig að ráðherrar sitji ekki á Alþingi og takmörk verði á tillögurétti þeirra  og málfrelsi á Alþingi. Verulega þarf  að efla eftirlitsþátt Alþingis og styrkja stöðu þess gagnvart framkvæmdavaldinu.
Dómsvaldinu þarf að tryggja sjálfstæði og hlutverkið þarf að skilgreina betur en nú er gert. Við þurfum ný vinnubrögð við skipun dómara, gegnsærri og lýðræðislegri.
Það verður tiltölulega auðvelt fyrir stjórnlagaþingið að ná lendingu í því sem nú er talið.
En umhverfismálin og auðlindirnar er ég hræddur um að verði erfiðari viðfangs. Ég styð að í stjórnarskrá verði ákvæði um  þjóðareign á auðlindunum. Fyrsta skrefið til þess er að ná samstöðu um skilgreiningu á hugtökunum auðlind og þjóðareign. Ekki auðvelt en það er hægt – ef viljinn er fyrir hendi. Viljann hef ég!
Viljann til að vinna af heilindum að því að gera stjórnarskrána okkar betri, tækifæri til þess gefst á stjórnlagaþinginu á næsta ári.
Viljir þú heilindi og víðsýni og að stjórnlagaþingið skili árangri fyrir okkur öll, þá er ein leiðin að kjósa mig – setja 2974 efst á blað!

23 nóvember, 2010

Hvern lætur þú hugsa fyrir þig? Á ég að hugsa fyrir þig?

Þrýstihóparnir hafa nú fyrir alvöru blandað sér í kosningabaráttuna fyrir stjórnlagaþingið. Draga fram afstöðu frambjóðenda til einstakra mála og leggja á það ofurkapp við sitt fólk að kjósa nú í samræmi við þessa þröngu sérhagsmuni. Þrýstihóparnir vilja hugsa fyrir þig, taka af þér ómakið J
Það eiga líklega eftir að koma fram fleiri sérhagsmunagæsluhópar, hópar sem einskis svífast til að koma sínu fram. Fyrirferðamestu þrýstihóparnir núna einblína á kvótakerfið, ESB og þjóðkirkjuna. Hér koma hugleiðingar mínar í tengslum við þessi þrjú helstu viðfangsefni þeirra sem vilja draga athyglina frá því sem stjórnlagaþingið snýst um.

Ætlar þú að kjósa til stjórnlagaþings eftir afstöðu frambjóðenda til aðildar að ESB?
Aðild að ESB er ekki verkefni stjórnlagaþings. En það er verkefni stjórnlagaþings að setja í  stjórnarskrána ákvæði um að samningar á borð við hugsanlegan aðildarsamning verði ekki samþykktir nema þeir hljóti samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta hefur í sjálfu sér ekkert með ESB að gera. Ef Íslendingar einhvern tíma ákveða að ganga í ESB er það verkefni þess tíma að gera breytingar á löggjöf landsins ef það verður nauðsynlegt. Stjórnarskráin meðtalin. Það er verkefni stjórnlagaþings núna að búa svo um hnútana að stjórnarskrá verði ekki breytt nema með samþykki kjósenda, í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ætlar þú að kjósa til stjórnlagaþings eftir afstöðu frambjóðenda til þjóðkirkjunnar? Í stjórnar-skránni er lagagrein um að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi. Í þessari sömu lagagrein segir líka: „Breyta má þessu með lögum“. Þetta þýðir einfaldlega að það þarf ekki að breyta stjórnarskrá til að breyta stöðu þjóðkirkjunnar, málið má afgreiða á Alþingi með venjulegri lagasetningu. Þess vegna spyr ég: Er þá ástæða til að láta það draga athygli og taka tíma frá málum sem aðeins verða leyst í stjórnarskrá? Eins og t.d. ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur, um verk- og valdsvið forseta, um skarpari þrískiptingu valdsins svo eitthvað sé nefnt.
Mínar hugmyndir um þjóðaratkvæðagreiðslur gera minnihluta þingmanna eða tilteknum fjölda kjósenda kleift að senda mál til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðkirkjan er ágætt dæmi um mál sem þannig mætti leggja í dóm kjósenda, milliliðalaust og án þess að flækja því í önnur mál.

Ætlar þú að kjósa til stjórnlagaþings eftir afstöðu frambjóðenda til kvótakerfisins?
Kvótakerfið er ekki verkefni stjórnlagaþings, ekki frekar en t.d. einstök virkjanaleyfi. Ég styð eindregið að í stjórnarskrá verði kveðið skýrt á um að allar okkar auðlindir verði óskipt þjóðareign. Í anda þjóðfundar kæmu svo til viðbótar ákvæði um „sjálfbæra nýtingu með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi“. Jafnvel þessi „einfalda“ lagasetning er ekki einföld. Ég veit hvað ég hugsa þegar ég heyri orðið auðlind. Þú veist líka hvað þú hugsar þegar þú heyrir orðið auðlind, en það er alls ekki víst að við leggjum sömu merkingu í orðið. Það er því meðal verkefna stjórnlagaþings að skilgreina hugtakið auðlind. Stjórnlagaþingið þarf líka að skilgreina hugtakið þjóðareign, ég nota stundum orðið almannaeign.
Stjórnarskráin er grunnur annarrar löggjafar og segir til um stjórnskipan landsins. Hvorki virkjanaleyfi né úthlutun veiðiheimilda eiga að vera í stjórnarskrá, en í stjórnarskránni þurfa að vera skýrar forsendur fyrir því hvernig löggjafi og framkvæmdavald skulu haga lögum og reglum.

Ég vil ekki hugsa fyrir þig!
En ég vil vinna fyrir þig og með þér. Vinna af heilindum að því að gera stjórnarskrána okkar betri, tækifæri til þess gefst á stjórnlagaþinginu á næsta ári.
Viljir þú heilindi og víðsýni og að stjórnlagaþingið skili árangri fyrir okkur öll, þá er ein leiðin að kjósa mig – setja 2974 efst á blað!

14 nóvember, 2010

Þjóðaratkvæði

Ákvæði um þjóðaratkvæði þarf að setja í stjórnarskrá, ákvæði sem kæmi í staðinn fyrir málskotsrétt forseta. Setja þarf ákvæði um hverja og hve marga þarf til að mál fari í þjóðaratkvæði.  Einnig þarf að skilgreina hvers konar mál má fara með í þjóðaratkvæði á grundvelli stjórnarskrár. Það eiga að vera mál sem snúast um grundvallaratriði frekar en t.d. mál er varða einstaka framkvæmdir.
Mál sem varða eign, yfirráð eða varanlegan nýtingarrétt lands eða auðlinda eiga erindi í þjóðaratkvæði. Hið sama gildir um alþjóðlega samninga og milliríkjasamninga sem hafa bein áhrif á íslenska löggjöf, dómsmeðferð eða skerða á einhvern hátt sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Fjárlög eru dæmi um mál sem ekki hentar í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Tiltekinn fjöldi Alþingismanna þarf að geta skotið málum til þjóðarinnar. Hjá Dönum getur þriðjungur þingmanna skotið máli til þjóðarinnar, held að við ættum að vera á svipuðum slóðum. Tiltekinn fjöldi kjósenda þarf líka að geta skotið máli til þjóðaratkvæðagreiðslu, spurning hvort miða mætti við fimmtung (20%) kjósenda. Þriðja leiðin að þjóðaratkvæðagreiðslu gæti svo verið blanda af þessu tvennu.
Það er nauðsynlegt að ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur verði þannig að það verði raunverulegur möguleiki á að skjóta málum til þjóðarinnar. Hins vegar þarf að vera einhver þröskuldur, nógu hár til að litlar líkur séu á misnotkun.

12 nóvember, 2010

Forsetinn og málskotsrétturinn

Á forsetinn áfram að hafa málskotsrétt? Þ.e. á forsetinn áfram að hafa möguleika á að láta bera lög frá Alþingi undir þjóðaratkvæði? Helst vil ég  gera þennan rétt forseta óþarfan.

Ég vil að minnihluti þingmanna fái málskotsrétt, geti sent mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vil líka að tiltekið hlutfall kjósenda (minnihluti) geti skotið málum í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Málskotsrétturinn á að vera í stjórnarskrá, ekki vafi í mínum huga. En „endanlegt“ svar við spurningu um málskotsrétt forseta ræðst auðvitað af því hvernig og hvar vald- og verksvið forseta verður skilgreint í stjórnarskrá.
Hlutverk forseta er mjög óskýrt í stjórnarskránni, því þarf að breyta. Byrjun á þeirri vinnu er væntanlega að skilgreina hvort forsetinn eigi að vera hluti af löggjafarvaldinu eða framkvæmdavaldinu. Ef forseti verður (áfram) hluti af löggjafarvaldinu, þá getur verið eðlilegt að hann hafi þennan málskotsrétt. En verði forseti hluti framkvæmdavaldsins á hann ekki aðild að lagasetningu og þar með fellur þessi málskotsréttur sjálfkrafa út. Mín tillaga er að forsetaembættið verði hluti af framkvæmdavaldinu.
Að óbreyttu vil ég að forsetinn hafi áfram málskotsrétt. En ég vil breyta stjórnarskránni þannig að við, almennir borgarar, fáum sjálfir þennan rétt og aðkoma forsetans verði óþörf.

03 nóvember, 2010

Steinunn Sigurðardóttir og Vigdís Grímsdóttir - spennandi kostir!

Það er mikilvægt að á stjórnlagaþing veljist sundurleitur hópur, en ekki sundurlyndur samt. Fólk með mismunandi bakgrunn og viðhorf, fólk sem sér málin frá mismunandi sjónarhornum og er tilbúið til að vinna að sameiginlegri niðurstöðu. Verði niðurstaða stjórnlagaþings sem næst einróma eru óneitanlega meiri líkur á að frumvarpið nái fram að ganga, njóti stuðnings almennings og þá verður efitt fyrir Alþingi annað en að taka málið fyrir og samþykkja breytingar á stjórnarskrá. Áherslur frambjóðenda til þingsins eru mjög mismunandi – sýnist mér. Það væri nú annað hvort. En ég geri mér vonir um að þó frambjóðendur leggi áherslur á mismunandi þætti núna, þá verði viljinn til að ná sameignlegri lendingu ráðandi þegar á hólminn kemur.
Í baráttu um athygli og stuðning er sérstaða mikilvæg, en þegar hópurinn er jafn fjölmennur og fjölbreyttur í þessum kosningum þá verður slíkt erfiðara en ella.
Sérstaða mín er helst áherslan á að saminn verði inngangur að stjórnarskránni og að sá inngangur og reyndar stjórnarskráin öll verði á mannamáli, fallegri og vandaðri íslensku (en ekki á lagamáli, stofnanamáli eða í uppskrúfuðum skrautstíl).
Ég vil fá fólk úr hópi skálda okkar og rithöfunda til að orða innganginn og hugsanlega að hafa hönd í bagga með allri textagerð. Sem dæmi um fólk í rithópinn nefni ég Steinunni Sigurðardóttur og Vigdísi Grímsdóttur, það væri gaman að fá frá þér fleiri uppástungur.
(Verst ef allir listamennirnir verða komnir í „venjulega vinnu“ og geti þess vegna ekki tekið verkið að sér J)

26 október, 2010

Þjóðin verði stjórnarskrárgjafi

Stjórnlagaþingið er einstakt í sögu þjóðarinnar. Meðal áherslumála minna er að í framtíðinni verði stjórnlagaþing haldið þegar breyta skal stjórnarskrá, breytingar á stjórnarskrá verði teknar út af Alþingi. Tiltekinn fjöldi kjósenda geti með undirskriftum sínum boðað til stjórnlagaþings. Hið sama geti t.d. þriðjungur þingmanna gert. Þegar boðað hefur verið til stjórnlagaþings skal kjósa til þingsins í almennum kosningum eins og nú er gert. Með þessu móti verður þjóðin stjórnarskrárgjafi.